Forverkefni Eyþings um 

svæðisskipulag ferðamála

NÝ FRÉTT

Bakgrunnur

Í Sóknaráætlun fyrir Norðurland eystra 2015-2019 eru sett fram ellefu meginmarkmið sem sveitarfélögin í landshlutanum hafa ákveðið að vinna saman að á næstu árum. Eitt þeirra snýr að mótun heildstæðrar stefnu um ferðaþjónustu m.t.t. hagsmuna umhverfis og samfélags og til grundvallar markaðssetningu og uppbyggingu ferðamannastaða. Á grunni þess markmiðs og samþykktar aðalfundar 2015 ákvað stjórn Eyþings að hefja undirbúning að gerð svæðisskipulags um ferðamál. Þetta forverkefni er liður í þeim undirbúningi og er skilgreint sem áhersluverkefni innan Sóknaráætlunar Norðurlands eystra.

Tilgangur

Forverkefnið snýst um að skýra þá þætti sem sveitarstjórnir þurfa að taka afstöðu til áður en hægt er að hefja svæðisskipulagsgerð, en þeir varða:

 • Hlutverk svæðisskipulags og samspil við aðrar áætlanir, s.s. sóknaráætlun, stjórnunaráætlanir áfangastaða (sjá nánar hér neðar) og aðrar skipulagsáætlanir.

 • Viðfangsefni svæðisskipulagsins og helstu forsendur þeirra viðfangsefna.

 • Nálgun við samráð, greiningu og stefnumótun.

 • Vinnuferlið við mótun áætlunar.

Samspil við stjórnunaráætlun um áfangastaðinn Norðurland

Á vegum Markaðsstofu Norðurlands, undir stjórn Ferðamálastofu og Stjórnstöðvar ferðamála og í samræmi við Vegvísi í ferðaþjónustu, stendur til að vinna stefnumótandi stjórnunaráætlun fyrir Norðurland (e. Destination Management Plan, skammstafað DMP). Í kynningarblaði Ferðamálastofu um slíkar áætlanir segir: „DMP er heildstætt ferli þar sem litið er til skipulags og samhæfingar í þróun og stýringu allra þeirra þátta sem geta haft áhrif á upplifun ferðamanna á viðkomandi svæði/áfangastað, þ.m.t. þarfir gesta, heimamanna, fyrirtækja og umhverfis. DMP er sameiginleg stefnuyfirlýsing sem hefur það að markmiði að stýra uppbyggingu og þróun svæðis yfir ákveðinn tíma, skilgreina hlutverk hagsmunaaðila, tiltaka beinar aðgerðir sem hver og einn hagsmunaaðili ber ábyrgð á og hvaða bjargir/auðlindir þeir hyggjast nýta við þá vinnu." Mikilvægur liður í forverkefni um svæðisskipulag er því að skilgreina samspil við DMP fyrir Norðurland. Vilji er til að svæðisskipulagið og DMP verði unnið sem ein heild að því er snýr að Norðurlandi eystra.

 
 
SVÆÐISSKIPULAG
 • Er skipulagsáætlun tveggja eða fleiri sveitarfélaga þar sem sett er fram sameiginleg stefna um byggðaþróun og þá þætti landnotkunar sem talin er þörf á að samræma vegna sameiginlegra hagsmuna hlutaðeigandi sveitarfélaga. 

 • Skal taka til svæðis sem myndar heild í landfræðilegu, hagrænu og félagslegu tilliti.

 • Skal ná til a.m.k. tólf ára tímabils.

 • Skal byggja á markmiðum skipulagslaga og landsskipulagsstefnu.

 • Er unnið af svæðisskipulagsnefnd sem sveitarstjórnir skipa.

 • Er rétthærra en aðalskipulag og skal aðalskipulag byggja á stefnu svæðisskipulags.

 • Markar almenna stefnu og skal eingöngu ákveða staðbundna landnotkun að því marki sem nauðsyn þykir til að tryggja sameiginlega hagsmuni sveitarfélaganna, til að útfæra landsskipulagsstefnu eða vegna nauðsynlegrar samræmingar landnotkunar.

 • Sjá nánar skipulagslagslög og vef Skipulagsstofnunar.

Dæmi um markmið með svæðisskipulagsáætlun um ferðamál
 • Að ferðamál svæðisins þróist með þeim hætti að þau virði samfélag og náttúru og styrki sérkenni og ímynd.

 • Að auka aðdráttarafl  svæðisins fyrir nýja íbúa, ferðamenn, fyrirtæki og fjárfesta.

 • Að fjölga áfangastöðum í þeim tilgangi að ferðamenn dreifist meira um allt svæðið.

 • Að auka samvirkni  ferðmannastaða.

 • Að stuðla að skipulegri uppbyggingu og samstöðu um forgangsröðun innviða.

 • Að auðvelda aðgang að fjármagni til einstakra verkefna sem eru í samhengi við skýra heildstæð stefna fyrir allan landshlutann.

 • Að skapa grunn fyrir mörkun (regional branding) landshlutans og fyrir samræmda markaðsstefnu.

Show More

Hafa samband

Hér er hægt að senda skilaboð til skipulagsráðgjafanna hjá Alta. Allar hugmyndir, tillögur, ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar.

 

Einnig má senda tölvupóst beint á verkefnisstjórann:

matthildur@alta.is

 

 

© 2023 by NORTHPOLE. Proudly created with Wix.com